Kleifar

Tjaldsvæði/Camping

19.07.2011 12:09

Söngveisla á Kirkjubæjarklaustri helgina 13. og 14. ágúst 2011

Í undurfagurri umgjörð náttúru Kirkjubæjarklausturs og nágrennis mun hin árlega tónlistarhátíð Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri bjóða upp á sannkallaða söngveislu helgina 13. og 14. ágúst 2011. Þrjár af björtustu söngstjörnum okkar Íslendinga leiða þar saman hesta sína og flytja söngperlur frá ýmsum tímum. Þetta eru þau Garðar Thór Cortes, tenór, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Þóra Einarsdóttir, sópran. Með þeim leika píanóleikararnir Ástríður Alda Sigurðardóttir og Krystyna Cortes og gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui. Auk þess munu Ástríður Alda og Javier leika einleik.

Á efnisskránni er meðal annars nýtt verk sem Haukur Tómasson samdi sérstaklega fyrir hátíðina, Sönglög úr Söng steinasafnarans við ljóð eftir Sjón. Af öðrum tónskáldum má nefna Eduardo Morales-Caso, Philip Houghton, Frédéric Chopin, Tryggva M. Baldvinsson, Benjamin Britten, Sergei Rachmaninoff, Francis Poulenc, Nikolai Rimsky-Korsakoff, Erik Satie og Giacomo Puccini.

Á tónleikunum laugardaginn 13. ágúst kl. 17:00 munu Guðrún Jóhanna og Javier flytja lagaflokkinn Homenajes eftir spænsk-kúbverska tónskáldið Eduardo Morales-Caso, sem er ortur til heiðurs og í stíl þriggja af mikilvægustu tónskáldum Spánar, Rodrigo, Mompou og Falla. Francisco Javier mun þá leika gítareinleiksverkið Stelle, eftir Philip Houghton, sem sækir tónlistarefnivið sinn í austurlenskar hefðir og málar tyrkneska dervish dansa í tónum. Ástríður Alda mun flytja Ballöðu nr. 1 eftir Chopin, sem hún gaf út nýlega á geisladiski með verkum tónskáldsins á tvöhundruð ára aldarafmæli hans. Eftir hlé munu þau Guðrún og Javier frumflytja nýtt verk, Sönglög úr Söng steinasafnarans, sem Haukur Tómasson samdi sérstaklega fyrir Kammertónleika á Kirkjubæjarklaustri við ljóð eftir Sjón. Tónleikunum lýkur með sérstaklega skemmtilegum lögum úr ljóðaflokknum Heimskringlu eftir Tryggva M. Baldvinsson við snilldarljóð Þórarins Eldjárns.

Á sunnudagstónleikunum 14. ágúst kl. 17:00 mun Garðar Thór Cortes, tenór, sýna á sér ljóðasöngvarahliðina í lagaflokknum Winter Words eftir Benjamin Britten, við undirleik Krystynu Cortes. Þóra Einarsdóttir og Ástríður Alda munu þá flytja gullfalleg og ástríðufull lög eftir Rachmaninoff, Poulenc, Rimsky-Korsakoff og Erik Satie. Tónleikunum og hátíðinni allri lýkur svo með flutningi Garðars Thórs og Þóru á einni af fegurstu senum óperubókmenntanna, þegar Rodolfo og Mimí kynnast í óperunni La Bohème. Þau munu syngja aríurnar Che gelida manina, Sí, mi chiamano Mimí og dúettinn O, soave fanciulla.

Tónleikagestir í Skaftárhreppi eiga því von á skemmtilegum og safaríkum tónleikum í flutningi fyrsta flokks tónlistarmanna helgina eftir Verslunarmannahelgina í Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri.

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri voru stofnaðir 1991 af Eddu Erlendsdóttur, píanóleikara og hafa verið haldnir árlega síðan. Edda var listrænn stjórnandi tónleikanna frá upphafi til 2006 en þá tók Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, mezzósópransöngkona við stjórninni. Á annað hundrað tónlistarmanna, íslenskra sem erlendra, hafa komið fram á tónleikunum. Margir þeirra hafa verið teknir upp af Ríkisútvarpinu og eru geymdir þar.

Menningarráð Suðurlands, Mennta og menningarmálaráðuneytið og Musica Nova styrkja tónleikana auk ýmissa fyrirtækja í héraði, en Menningarmálanefnd Skaftárhrepps heldur utan um framkvæmd þeirra.

Hótel og gististaðir á og í nágrenni Klausturs bjóða gestum hátíðarinnar upp á gistingu og fæði í ýmsum verðflokkum. Um það ásamt nánari upplýsingum um tónleikana má fá upplýsingar í Skaftárstofu á Klaustri í síma 487-4620 á síðunni www.klaustur.is eða í netfanginu info@klaustur.is

Miðaverð er 3.500 kr. á staka á tónleika og 6.000 kr. á báða tónleikana. Miðaverð fyrir eldri borgara er 3.000 á staka tónleika og 5.000 kr. á báða.

Hér erum við

 


View My Saved Places in a larger map
Flettingar í dag: 236
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 268
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 659321
Samtals gestir: 131810
Tölur uppfærðar: 14.4.2021 16:22:00

Tjaldsvæði

Nafn:

Kleifar

Farsími:

8617546

Heimilisfang:

Geirlandsvegur (Mörk)

Staðsetning:

Kirkjubæjarklaustur

Heimasími:

4874675

Um:

Tjaldsvæðið Kleifar stendur við Geirlandsveg 2,5km. frá Kirkjubæjarklaustri. Við tjaldsvæðið er fallegur foss sem heitir Stjórnarfoss og á góðviðrisdögum verður vatnið í Stjórninni svo heitt að hægt er að fá sér sundsprett. Á tjaldsvæðinu eru tvö vatnssalerni og kalt rennandi vatn, bekkir og borð. Stutt er á Kirkjubæjarklaustur þar sem hægt er að komast í matvöruverslun, veitingastaði og sundlaug svo eitthvað sé nefnt.

Tenglar

This page in english
clockhere